framhaldi af grein okkar 21. júní eru hér nokkrar af þeim tillögum sem geta leyst bráðavanda í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Þessi grein er framhald af grein okkar Bráðavandi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, sem birtist í Morgunblaðinu 21. júní. Þar var lýst bráðavanda í samgöngumálum sem blasir við íbúum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og versnar hratt.
Samtökin Samgöngur fyrir alla (SFA) hafa tekið saman nokkrar tiltölulega fljótlegar lausnir á þeim mikla vanda. Þær aðgerðir kosta lítið í stóra samhenginu og framkvæmdin tekur eingöngu nokkur ár. Samgöngur fyrir alla, þar með talið almenningssamgöngur, batna verulega með þessu á næstu árum þar til umbylting verður eftir 10-15 ár þegar umferðarmálin hafa verið leyst til lengri tíma með jarðgöngum. Að óbreyttu er núverandi samgöngusáttmáli strand eða tekur a.m.k. 20-30 ár með óheyrilegum kostnaði.Tillögurnar eru vissulega ekki meitlaðar endanlega á blað, hvað þá í stein, og verða áfram til umræðu.
Tillögur og kostnaðaráætlun
Hér á eftir eru 11 tillögur sem áætlað er að kosti alls um 115 ma.kr í framkvæmd, sem er umtalsvert lægri upphæð en þær sem blasa við okkur samkvæmt fyrirhuguðum framkvæmdum. Miklubrautargöng og Sundagöng/braut ekki meðtalin, sem geta jafnvel orðið að mestu sjálfbært verkefni með hóflegri gjaldtöku. Mynd 1 sýnir með rauðum línum staðsetningu einstakra framkvæmda sem hér eru lagðar til.
- Taka í notkun nýtt leiðakerfi strætó, byggt að mestu á fyrirliggjandi drögum. Kostnaðaráætlun um 35 ma.kr. Borgarlína verði byggð upp sem hluti nýs leiðakerfis strætó. Vagnakostur og biðskýli verði bætt og forgangur veittur á ljósum. Á borgarlínuleiðum verði tíðni allt að sex ferðir á klst. á álagstíma og fjórar á klst. utan álagstíma á virkum dögum. Sérakreinar sem taka vagna fram hjá biðröðum við ljós verði settar hægra megin akbrauta (sjá mynd 4) og borgarlína byggð áfram á næstu árum með hliðarsettum forgangsakreinum, þar sem þörf krefur (sjá mynd 2). Þannig verður borgarlína margfalt ódýrari en fyrirhuguð miðjusett borgarlína, rekstur hagkvæmari, hún veldur annarri umferð lágmarkstöfum og kostnaði og nær fyrr að þjóna íbúum höfuðborgarsvæðisins.
- Einföld mislæg gatnamót sem vegbrú yfir Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Kostnaðaráætlun um 3 ma.kr. Mælt er með vegbrú sem Vegagerðin birti árið 2017 (mynd 3). Það gerir hliðarsetta borgarlínu mögulega með umferðinni í stað miðjusettrar þar sem greið umferð er möguleg vegna engra umferðarljósa. Með þessu verða til einfaldar og óþarfar flóknari og margfalt dýrari lausnir milli Vogabyggðar og Mjóddar.
- Auka flutningagetu Hafnarfjarðarvegar og Kringlumýrarbrautar. Kostnaðaráætlun um 10 ma.kr. Hafnarfjarðarvegur og Kringlumýrarbraut verði breikkaðar um eina akrein í hvora akstursstefnu allt frá Arnarnesvegi að Sæbraut. Undirgöng eða brú fyrir gangandi og hjólandi komi í stað gangbrautarljósa við Hamrahlíð.
- Fjórar akreinar Kringlumýrar¬brautar settar í göng undir Miklubraut. Kostnaðaráætlun um fjórir milljarðar. (Sjá mynd 4) Þetta er þekkt lausn erlendis. Göng fara undir umferðargötu í stað mislægra umfangsmikilla mannvirkja. Áfram eru ljós fyrir beygjuumferð en umferð um Miklubraut fær lengri græntíma á umferðaljósum þar sem Kringlumýrarbraut truflar ekki umferðarflæði, sem eykur afkastagetu umtalsvert.
- Reykjanesbraut verði breikkuð í sex akreinar frá Breiðholtsbraut að Álftanesvegi. Kostnaðaráætlun um níu ma.kr.
- Sæbraut við Skeiðarvog-Kleppsmýrarveg. Kostnaðaráætlun um fjórir milljarðar. Fjórar akreinar Sæbrautar verða teknar í tiltölulega ódýr og einföld undirgöng undir Skeiðarvog-Kleppsmýrarveg með svipuðum hætti og Kringlumýrarbraut undir Miklubraut (mynd 4).
- Arnarnesvegur og mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut. Kostnaðaráætlun um átta milljarðar. Framkvæmdir eru hafnar, en í núverandi hönnun er ekki gert ráð fyrir mislægum gatnamótum.
- Tvöföldun Suðurlandsvegar sunnan og austan við Bæjarháls í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um tveir milljarðar.
- Fossvogsbrú (fyrir strætó, gangandi og hjólandi) í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um 10 ma.kr og er þá miðað við núverandi hönnun.
- Hafnarfjarðarvegur í stokk í Garðabæ í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um 10 ma.kr.
- Reykjanesbraut milli Lækjargötu og Álftanesvegar í Hafnarfirði í jarðgöng undir Setberg. Kostnaðaráætlun um 20 ma.kr.
Langtímasýn í samgöngu- og skipulagsmálum
Samhliða ofangreindum framkvæmdum og öðrum smærri fer fram undirbúningur, hönnun og síðan framkvæmdir við jarðgöng undir Miklubraut, Sundabraut/göng og aðrar jarðgangahugmyndir. Þær ásamt öðrum langtímalausnum eru nauðsynlegar fyrir höfuðborgarsvæðið til næstu áratuga.
Byggð þarf að færast í norðaustur (Geldinganes og Álfsnes) og á Kjalarnes þar sem eru gífurlegir uppbyggingarmöguleikar. Þróa þarf hratt uppbyggingu á Ártúnshöfða, Keldnalandi og Keldnaholti, Blikastaðalandinu og áfram í Úlfarsárdal.
Góðar samgöngur fyrir alla ferðamáta gera höfuðborgarsvæðið áfram samkeppnishæft og sveigjanlegt fyrir fólk, fyrirtæki og farartæki af öllum gerðum og fótgangandi.
Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og varaborgarfulltrúi
Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2024