Umferðartafir hafa verið viðvarandi vandamál á höfuðborgarsvæðinu um langt árabil. Fátt bendir þó til að leyst úr þessum vanda í bráð, þrátt fyrir þá staðreynd að kostnaður af völdum umferðartafar hafi nú náð þjóðhagslegum stærðum.
Markmiðið með Borgarlínunni er ekki að draga úr umferðartöfum, heldur þvert á móti að auka á vandann með því að þrengja enn frekar að umferðarrými einkabílsins. Að baki býr sú trú, með réttu eða röngu, að breytingar á ferðavenjum fólks verði ekki knúðar fram með öðrum og mildari hætti.
Markmið stjórnvalda um breyttar ferðavenjur hafa lengi verið til staðar og eiga að öllu leyti fullan rétt á sér, enda standa ýmis veigamikil rök til þess að stuðla að aukinni notkun almenningssamganga hér á landi. Umferðarrými fyrir einkabílinn byggir sem dæmi á takmörkuðum gæðum. Akreinum er augljóslega ekki hægt að fjölga út í hið óendanlega. Einnig má benda á augljós umhverfis- og loftslagsrök ásamt mikilvægi þess að fjölbreyttir ferðamátar standi almenningi til boða, þannig að fólk geti hagað ferðum eftir þörfum hverju sinni; að raunverulegt val standi til boða.
Engin knýjandi þörf fyrir Borgarlínuna
Enda þótt markmiðið Borgarlínunnar um aukna notkun almenningssamganga, sé gott og gilt, hversu knýjandi þörf er á umræddum ferðavenjubreytingum?
Stutta svarið við þessari spurningu er að fátt knýi á um bráðar breytingar á ferðavenjum. Umferðartafirnar sem eru nú til staðar eru bein afleiðing af áratuga innviðaskuld. Þá gera orkuskiptin að verkum að borð hefur myndast fyrir báru hvað umhverfis- og loftslagsrökin snertir, svo að fátt eitt sé nefnt.
Þjóðhagslega væri því margfalt hagkvæmara að greiða fyrst innviðaskuldina, áður en ráðist er í griðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir. Útreikningar SFA benda til að verði sú skuld gerð upp munu þær vega- og umferðarbætur duga til ársins 2050 (allt eftir mannfjöldaspá).
Sú knýjandi þörf sem þó blasir við, hverjum sem vill sjá, er þörfin fyrir löngu tímabærri uppbyggingu á Strætó bs., sem hefur einhverra hluta vegna sætt sama svelti og umferðarkerfi höfuðborgarinnar.
Samkeppni við einkabílinn nær vonlaus
Að breyta ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu með það fyrir augum að auka hlut almenningssamganga á kostnað einkabílsins er þó hægara sagt en gert. Þetta er ekki út af því að fólk veigri sér almenningssamgöngum sem slíkum, heldur er það tímaþátturinn sem stendur út af. Meðalferðatími er það stuttur í einkabíl, að samkeppnisstaða Strætó sem raunverulegur valkostur hefur verið nær vonlaus. Hér er um þre- til fjórfaldan mun að ræða og lýsir það eitt og sér þessari erfiðu samkeppnisstöðu ágætlega.
Rannsóknir sýna að í þeim tilvikum þar sem almenningssamgöngur keppa við einkabíliinn, jafnast þessi aðstöðumunur ekki fyrr en einkabílaferð tekur að jafnaði lengri tíma en með almenningssamgöngum. Þetta þýðir í raun að almenningur mun ekki leggja ferðarvenjur sínar um að neinu marki, fyrr en meðalferðatími er orðinn í það minnsta þrefalt lengri.
Bráðsnjöll lausn sem knýr fram breytingar með góðu eða vondu
Sú aðferð að byggja upp almenningssamgöngur sem eyðileggja markvisst fyrir notkun einkabílsins, með t.d. fækkun akreina, bílastæða og ósamstilltum umferðarljósum, er því jafn bráðsnjöll og hún er miskunnarlaus gagnvart lýðræðislegum vilja borgarsamfélagsins. Höfum hugfast að skipulagsbreytingar Borgarlínunnar fela í sér að þrengt verður all verulega að notkun einkabílsins, einnig þá daga þegar veður er vont og einhverjir myndu vilja eiga þess kost að komast á einkabílnum.
Á heildina litið, verður því ekki betur séð, en að sú nauðhyggja sem fylgt hefur innleiðingu Borgarlínunnar allt frá hugmyndastigi hennar hjá skipulags- og umferðaryfirvöldum Reykjavíkurborgar, hafi byrgt mönnum sýn með heldur nöturlegum afleiðingum. Eftir stendur vegakerfi sem stefnt er að því að eyðileggj svo að byggja megi upp risavaxna Borgarlína fyrir hundruðir millarða króna á næstu 15 til 20 árum, sem kosta verður síðan til í rekstur allmörgum milljörðum á hverju ári – eða margfaldan núverandi rekstrarkostnað Strætó.
Versta fjárfesting allra tíma
Á mannamáli má því orða þetta sem svo að Borgarlínan sé einhver versta fjárfesting sem ráðist hefur verið í hér landi og gera mun okkur öll sem þjóð fátækari með því að draga úr skilvirkni samgöngukerfisins, einni mikilvægustu undirstöðu hagkerfisins.