Algengar spurningar

Hvað er hægt að gera á næstu 5 árum til að minnka umferðartafir?

Gera mislæg gatnamót á Reykjanesbraut við Bústaðaveg og á Kringlumýrarbraut við Miklubraut. Breikka Kringlumýrarbraut í 6 akreinar norðan Bústaðavegar og 8 akreinar milli Bústaðavegar og Nýbýlavegar. Breikka Hafnarfjarðarveg milli Nýbýlavegar og Arnarnesvegar í 6 akreinar. Endurskoða leiðakerfi Strætó og auka ferðatíðni á stofnleiðum á álagstíma og gera forgangsakreinar þar sem eru langar biðraðir bíla á álagstímum.

Leiðir Borgarlínan til þess að umferðartafir verði minni en ella?

Hönnun Borgarlínu gerir ráð fyrir fækkun akreina fyrir almenna umferð og mun því leiða til aukinna umferðartafa. Borgarlínan mun því auka en ekki minnka umferðartafir.

Er Borgarlínan hagkvæm leið?

Tæknileg útfærsla Borgarlínunnar er afar kostnaðarsöm. Það ásamt fækkun akreina fyrir almenna umferð leiðir til þess að þessi leið er óhagkvæm.

Hvernig er hagkvæmast að bæta almenningssamgöngur?

Endurskoða leiðakerfi Strætó þannig að leiðum verði fækkað. Auka í staðinn ferðatíðni á stofnleiðum Strætó. Fjölga forgangsakreinum fyrir strætó þar sem strætisvagnar tefjast vegna langra biðraða bíla á álagstímum.

Leiðir þétting byggðar til minni bílaumferðar?

Eknum kílómetrum fjölgar ekki eins mikið.
Hins vegar eykst bílaumferð töluvert í viðkomandi byggð.

Leiða mislæg gatnamót og fjölgun akreina til meiri umferðar?

Aukning á flutninggsgetu gatnakerfis leiðir eðlilega til meiri umferðar  Aukningin verður tiltölulega lítil hér á höfuðborgarsvæðinu saman borið við stórborgir þar sem umferðartafir eru vandamál meirihluta dags.

Hver er hlutur ferða með strætó?

Hlutur ferða með strætó er um 5 % af öllum ferðum heimila. Ef ferðir á vegum fyrirtækja og þeirra sem ekki búa á svæðinu eru teknar með í reikninginn þá er hlutur ferða með strætó um 3 %.

Hve mikillar aukningar er vænst í bílaumferð á næstu 10 árum?

Aukningin í bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu getur orðið allt að 40% á næstu 10 árum.

Mun Borgarlínan breyta ferðavenjum?

Gera má ráð fyrir að ferðir með bílum
verði allt að 2-3 % minni en ella. Um minniháttar breytingu verður því að ræða.

Er markmið um 12 % hlut ferða með almenningssamgöngum árið 2040 raunhæft?

Þetta markmið samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er ekki raunhæft. Reynsla annarra þjóða, s.s. Norðmanna, sem hafa ráðist í þá stórkostlegu uppbyggingu sem fyrirhugað er með samgöngusáttmálanum, sýnir svo að ekki verður um villst að bílaferðum fækkar við það lítillega eða um 2-3%. Meginbreytingin hefur reynst sú að farþegum í einkabílum fækkar, en ekki bílunum sem slíkum.

Er markmið um 58% hlut ferða með bílum árið 2040 raunhæft?

Þetta markmið er ekki raunhæft, aðallega fyrir þá sök, að ferðatími er að meðaltali að stuttur hér á landi. Í samanburðarlöndum er ferðatími mun lengri að meðaltali sem gerir samkeppnina við einkabílinn skaplegri. 

Má reikna með breyttum ferðavenjum í framtíðinni?

Gera má fastlega ráð fyrir því, aðallega vegna þess að um mikilvæga almenningshagsmuni er hér að ræða ræða til lengri tíma litið, en erfitt gæti reynst að spá nákvæmlega fyrir um slíkar breytingar.  

Hvernig má breyta ferðavenjum?

Margar leiðir eru til þess, s.s. að bæta almenningssamgöngur, fjölga göngu- og hjólreiðastígum, þétta byggð, hafa betra jafnvægi í innbyrðis staðsetningu íbúðarbyggðar og atvinnusvæða. Þá má með íþyngjandi gjöldum gera notkun almenningssamganga hagstæðari í samanburði við einkabílinn.

Hvað kosta mislæg gatnamót?

Kostnaður við mislæg gatnamót er að jafnaði um 3 ma.kr. Hafa ber þó í huga að kostnaður hverju sinni fer eftir aðstæðum og hönnun viðkomandi gatnamóta. 

Hvað kostar Borgarlínan?

Áætlaður kostnaður 60 km hraðvagnakerfis í gæðaflokki BRT-Gold er um  126 milljarðar kr. á verðlagi 2023. 

Hvað er létta Borgarlínan?

Létta Borgarlínan er tillaga SFA um ódýra og hagkvæma útfærslu á Borgarlínunni. Um er að ræða algengustu útfærslu hraðvagnakerfis sem er kallað BRT-Lite. Áætlaður kostnaður er um 30-40 milljarðar kr. Forgangsakreinar eru hægra megin í götuþversniði. Akreinum fyrir almenna umferð verður ekki fækkað.

Scroll to Top