Einangrunarstefna Reykjavíkur
Stefnt er á að koma upp almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem eru samkeppnishæfar við fjölskyldubílinn. Að baki liggur sá gegni tilgangur, að auka hlut almenningssamganga á kostnað einkabílsins.
Reykjavíkurborg hefur um langt skeið fylgt eigin stefnu í þessum málum. Þessar einkaáherslur, ef svo má að orði komast, felast í því að hægja á umferð með því að fækka bílastæðum, hækka bílastæðisgjöld og innleiða að því búnu eins há veggjöld og þarf til þess að fólk skilji einkabílinn frekar eftir heima og taki strætó.
Mikilvægur liður í stefnunni er jafnframt að breyta stórum hluta strætóleiða í BRT (Bus Rapid Transit) borgarlínu sem er sambærilegt við léttlestir (sporvagna) í rekstri og upplifun farþega. Þessir vagnar ganga á forgangsakreinum sem ekkert annað farartæki má nota og taka munu rými í umferðinni, sem þegar er af skornum skammti sökum innviðaskuldar sem safnast hefur upp á höfuðborgarsvæðinu á síðustu áratugum.
Reykjavíkurborg hefur síðan eitt sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu unnið að þessum markmiðum með lækkun hámarkshraða og skipulagsráðstöfunum eins og að þrengja að götum og leyfa ekki mislæg gatnamót.
Afleiðingar þessarar stefnu birtast þó ekki aðeins í miklum og vaxandi umferðartöfum.
Skipulagsstefna borgarlínu
Við þessar aðgerðir sem beinst hafa gegn einkabílnum bætist þéttingarstefna borgaryfirvalda. Stefnan gengur út á að þétta byggð á áhrifasvæði BRT borgarlínunnar svo þar búi um 2/3 allra íbúa höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni.
Þétting byggðar í Reykjavík hófst snemma á síðasta áratug með því að nýjar lóðir voru aðeins skipulagðar á þéttingarsvæðum vestan Elliðaár. Þar var lóðaverð hærra, aðstæður oft þröngar og dýrt að byggja. Umferðartafir hækkuðu kostnað enn meir eftir því sem þær uxu.
Þess var ekki gætt þá eða síðar, eins og nauðsynlegt er, að halda uppi framboði íbúða fyrir efnaminna fólk og fyrstu kaupendur. Meðalverð íbúða hækkaði sem og vísitalan. Lóðir eru boðnar út í reitum til fjárfesta sem hanna byggðina og selja byggingarrétt til verktaka sem byggja og selja. Úr þessum viðskiptum þurfa allir að fá sitt, fjárfestar, verktakar og borgin en íbúðakaupendur borga.
Á heildina litið hefur þessi óvægna borgarlínustefna því kynnt undir framboðsvandann á íbúðamarkaði, sem þýðir að íbúðarverðshækkanir í Reykjavík hafa breiðst út til nærliggjandi sveitarfélaga. Á meðan sveitarfélög á jaðrinum geta fagnað þessari hækkun, hefur hún komið niður á íbúaþróun í Reykjavík, eins og sjá má á því að frá þriðja ársfjórðungi 2014 til jafnlengdar 2023 stóð fjöldi íslenskra ríkisborgara búsettum í Reykjavík í stað. Á sama tíma hefur orðið veruleg fjölgun þeirra í öðrum sveitarfélögum á stórhöfuðborgarsvæðinu.
Borgarlínu-eylandið
Ísland vermir sæti meðal efstu þjóða á listum yfir efnahag og þróunarstig þjóða heims. Því náðum við með því að byggja upp skilvirkt vegakerfi og nýta flutninga með bílum til að hagræða í landbúnaði og sjávarútvegi ásamt uppbyggingu nýrra atvinnugreina eins og orkuiðnaðar og ferðaþjónustu.
Ísland er í þessum skilningi bílaland að Reykjavík er háð bílum með aðföng atvinnuvega sinna og samgöngur fólks um landið, líkt og önnur sveitarfélög landsins. Því verður heldur ekki breytt. Vegna bílsins er nú allt stórhöfuðborgarsvæðið frá Akranesi, suður um Árborg og vestur allt Reykjanes eitt atvinnusvæði til mikillar hagsbótar fyrir íbúa á svæðinu.
Með því að auka umferðartafir kringum miðborgina og þétta byggð í þágu almenningssamganga er Reykjavikurborg að einangra sigi. Ef til vill græða önnur sveitarfélög á því, en ekki sveitarfélagið Reykjavík.