Hægt á umferð til að auka samkeppnishæfni Borgarlínu
Stefnt er á að koma upp almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem eru samkeppnishæfar við fjölskyldubílinn. Það á að gera með því að breyta stórum hluta strætóleiða í BRT (Bus Rapid Transit) sem er sambærilegt við léttlestir (sporvagna) í rekstri og upplifun farþega. Þessir vagnar ganga á forgangsakreinum sem ekkert annað farartæki má nota.
Álaborg í Danmörku hefur nýlega komið sér upp slíkri BRT strætólínu og með henni komast farþegar yfir á hraða sem nemur um 24 km/klst. Við ferð þeirra bætist alls um 6 mínútna ganga til og frá biðstöðvum auk biðtíma, alls um 10 mínútur. Eftir þessar göngur, bið og 20 mínútna ferð með vagninum hefur farþeginn lagt að baki um 8 km til vinnu. Bíll í frjálsu flæði fer um 57 km/klst og reikna má alls 4 mínútur til athafna á báðum endum.
Samanburðurinn á ferð milli dyra er því:
- Með fjölskyldubílnum: 39 km/klst. eða 12 min.
- Með Borgarlínu: 16 km/klst. eða 30 mín.
Auk hárra veggjalda er engin önnur leið til að gera Borgarlínu samkeppnishæfa við fjölskyldubílinn en hægja á umferð annarra bíla og það mikið, fækka bílastæðum og hækka bílastæðagjöld. Reykjavíkurborg virðist eitt sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinna að þessu með lækkun hámarkshraða og skipulagsráðstöfunum eins og að þrengja að götum og leyfa ekki mislæg gatnamót.
Efnahagslegi vandinn
Afleiðing þessarar stefnu birtist vegfarendum fyrst og fremst sem miklar og vaxandi umferðartafir, sem draga svo aftur úr lífsgæðum íbúa. Þá hefur kostnaður atvinnuvega ekki aukist síður, s.s. þegar fjölga þarf bílum og fólki við flutning á varningi um borgina.
Vandinn er þó ekki síður efnahagslegur. Smávægilegar tafir þykja bara merki um öflugt atvinnulíf, þ.e. meðan fólk á leið til og frá vinnu tefst ekki meir en nemur vinnuvikunni árlega. En við 35 til 37 klukkustunda tafir samtals á ári kemur brotpunktur. Meiri tafir fara að valda vanlíðan borgaranna og hemja efnahagslega starfsemi. Í Reykjavík urðu tafirnar 54 stundir árið 2023. Þær eru farnar að skaða verulega og munu vaxa hratt á næstu árum lengra upp fyrir brotpunktinn.